Vinnumatssjóður

Reglur um vinnumatssjóð

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti á fundi sínum 22. desember 2011 eftirfarandi reglur um Vinnumatssjóð:

1. gr.
Félagsmenn í Félagi háskólakennara við Háskólann á Akureyri (FHA) sem falla undir matskerfi kennara (aðjúnktar, lektorar og dósentar) eiga kost á greiðslum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum umfram ákveðinn þröskuld á liðnu almanaksári. Skulu þeir hafa skilað inn stigamatsskýrslu til stjórnsýslu rannsókna eigi síðar en 1. febrúar ár hvert. Vinnumatsnefnd skipuð af matskerfisnefnd opinberra háskóla ber ábyrgð á matinu. Ekki er greitt úr Vinnumatssjóði fyrir áunnin stig vegna lokaritgerða, tilvitnana eða styrkja úr samkeppnissjóðum.

2. gr.
Háskólaráð ákveður framlög í Vinnumatssjóð með hliðsjón af fjárveitingu í fjárlögum. Einungis eru tekin til mats þau ritverk sem eru merkt Háskólanum á Akureyri.

3. gr.
Greiðslur fyrir hvert rannsóknastig úr Vinnumatssjóði taka mið af starfshlutfalli hvers og eins. Þannig fær starfsmaður í hálfu starfi greiddan helming á við þann sem er í fullu starfi fyrir hvert rannsóknarstig umfram ákveðinn þröskuld.

4. gr.
Við útreikning á rannsóknaframlagi félagsmanna í fullu starfi með 40% rannsóknaskyldu skal miða við 7 stiga þröskuld. Greitt skal fyrir rannsóknastig umfram 7 stiga þröskuld fyrir aðjúnkta, lektora og dósenta í fullu starfi við HA. Þröskuldur félagsmanna í hálfu starfi er helmingur á við starfsmann í fullu starfi eða 3,5 stig. Árleg vinnuskylda þeirra sem eru með 100% rannsóknaskyldu miðast við 14 stig og annarra hlutfallslega þar á milli. Þannig miðast árleg vinnuskylda þeirra sem eru með 60% rannsóknaskyldu við 9,33 stig. Starfi kennari við tvær eða fleiri háskólastofnanir getur hann ekki fengið tvígreitt fyrir sömu ritverk.

5. gr.
Árlegt mat skal liggja fyrir í síðasta lagi 15. júní og skal Háskólinn á Akureyri úthluta greiðslum úr sjóðnum 1. september ár hvert. Félagsmaður úr Félagi háskólakennara á Akureyri getur fengið greitt úr sjóðnum á árinu eftir að hann hættir störfum við skólann vegna rannsókna sem unnar eru á því ári sem hann lætur af störfum.

6. gr.
Reglur þessar eru settar á grundvelli 20. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Þær öðlast gildi 1. janúar 2012 vegna starfa á árinu 2012. Jafnfram falla þá úr gildi greglur nr. 157/2008.